Færsluflokkur: Matur og drykkur
Rósmarín og beikonvafin Lynghæna
6.2.2008 | 12:31
Miðvikudagur enn á ný og ég er heima hjá mér með barnið, þetta hlýtur að vera einn mesti kosturinn við starfið mitt, það er frítíminn. Ég var að fara í gegnum myndirnar mínar því ég hef í gegnum tíðina tekið mikið af myndum af matnum mínum, og fann hér eina góða sem minnir mig á að ég þarf að fara að gera þennan rétt aftur, þetta var í fyrsta skipti sem ég gerði lynghænu og hef í rauninni aldrei náð henni aftur svona góðri. Ég skrifaði þessa uppskrift niður á eldhúspappír og ætla að prenta hana upp hér á þessa síðu núna.
Fjórar lynghænur:
hænsnin eru þerruð vel með pappír, söltuð og pipruð líka inní, og lögð til hliðar.
kramið saman í mortéli: hvítlaukur, salt, olía, sítrónusafi (afgangur af sítrónu sett inní fuglinn) rósmarín , engifer og örlítið saffran.
Þessu er síðan makað á fuglinn (gott að nota sítrónuhelmingana) og látið standa í ca 2 klst í ískáp. hverjum fugli er síðan pakkað inní beikon (mér finnst að það þurfi að vera ca helmingur kjöt og helmingur fita í beikoni) og rósmarín grein höfð á milli (sjá myndina) best hefði sjálfsagt verið að binda fuglinn saman, en ég gerði það nú ekki að þessu sinni. ég skar niður sveppi og setti með í mótið og kleip smá smjörbita ofaná hvern fugl, þetta setti ég í ofninn undir grill í svona 5 mínútur og lækkaði svo hitann í 180 og eldaði þannig, í lokin setti ég grillið aftur í gang og snéri fuglinum við (veit ekki af hverju en ég taldið það betra á þeim tíma) ætli fuglinn hafi ekki verið í ofninum samtals í svona 40 - 50 mín.
Kartöflur voru soðnar með þessu, ásamt rjómasoðnum aspas og sveppunum.
sósan var nú bara soðið af þessu sulli öllu saman, drýgð með olíu, hvítvíni og örlitlu og þá meina ég örlitlu dijon,,,
man ekki hvaða vín var með þessu og enn síður hvaða tónlist var í gangi. Eitthvað franskt eflaust,
Það er matarboð í kvöld eins og alltaf virðist vera,, nenni ekki að gera neitt djúsí held ég,, skrifa um það síðar...
Daði
Matur og drykkur | Breytt s.d. kl. 12:34 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Saltkjöt hjá Mömmu minni,,,,
5.2.2008 | 20:27
Ég veit að þetta er klisja um matinn hjá mömmu, en ég held að bragðlaukarnir hafi minni,, alveg eins og minn gamli prófessor í lífeðlisfræðinni Jóhann Axelsson sagðst hugsa með lifrinni, held ég að ég hugsi með bragðlaukunum,, hættur að hugsa með einhverju öðru,, já mamma mín,,, var semsagt í mat hjá henni að borða feitt saltkjöt með baunasúpu og kartöflumús,,, hef svosem ekkert annað um það að segja, einföld matseld en frábær,,
skál fyrir mömmu minni..
daði
Fjallkonu fashani.
2.2.2008 | 18:17
Síðasta vika var strembin, Mikið að gera í vinnunni, aðgerð á miðvikudaginn, fundir vegna sérnáms, bréf að skrifa, fjölskylda að sinna, vísindaferð á föstudaginn. Það er því kærkomið að það sé komin helgi, ég hef ekkert eldað lengi. Dagurinn byrjaði á fjallgöngu með Rebekku, við fórum á Úlfarsfell og það er merkilegt að þegar manni tekst að brjóta utanafsér fullorðinshlekkina og renna sér á rassinum þá er það ótrúlega gaman, eitthvað sem ég þarf að temja mér meira, þe að vera ekki svona fullorðinn og fúll alltaf... Fjallaloftið eykur manni orku og hugsun og ég var að hugsa um fashanann sem liggur í frystinum mínum og hvernig ég gæti gert hann kræsilegann. Að elda er besta hugleiðslan held ég. Hér er fashani handa Rebekku fjallkonu.
Eitt stykki fashani (keypti hann í krónunni, hann lítur ekkert sérstaklega vel úr, hamurinn rifinn og tættur, skorið í lærið og hann allur eitthvað samankraminn. Líklega ástæða þess að krónan er svona "ódýr" ) saltaði hann og pipraði vel.
Ég kramdi saman í skál:
Hvítlauk, rósmarín, engifer, sítrónusafa. salt og pipar.
klukkan fimm hellti ég þessu yfir fuglinn, skar í lærin á honum, og setti sítrónuna og engiferafskurðinn og tvö stykki salami inní hann, og eitt stykki salami á brjóstið á honum.
klukkan sex byrjaði svo eldamennskan,,,,
í tagínunni.
steikti fuglinn í svona 2 mín á hverri hlið ef hægt er að tala um hliðar á fuglum en þið skiljið hvað ég á við,,,
bætti síðan við því grænmeti sem ég átti, í þessu tilfelli , lauk, papriku, döðlum, gulu epli og furuhnetum á pönnuna og steikti allt stuffið í svona nokkrar mínútu í viðbót.
svo helli ég slatta af bjór útí , og afganginum af grænmetissúpunni sem ég gerði í dag svona 4 dl
svo rétt fljóti uppá grænmetið og set lokið á. þetta sýður svo í svona 45 mínútur. Þegar 10 mínútur eru eftir set ég saffran af hnífsoddi útí. salt og pipar því þetta var ekki nógu djúsí....
meðan þetta rúllaði voru það kartöflurnar. vanalega þegar ég elda í tagínunni þá er allt gumsið í bland, en núna langaði mig í sérstakar kartöflur sem voru með kartöflubragði. ég semsagt gerði bakaðar basil kartöflur, eru ekki flóknar, sker þær í bita, smjör, basil og gráðostur hellt yfir og bakað. Alger killer.
með þessu var svo.....
salat, þið ráðið.,, en ég var með spínat og klettasalat með gráðosti.
sósan.
villisveppir frá því að við Rebekka fórum að tína í heiðmörk (man aldrei hvort tína er með ypsilon eða ekki) steiktir í smjöri, rjóma hellt yfir og soðið smá,, svo chilisultan hennar Ástu Bínu útí ásamt smá hvítvíni..
Vínið var hið típíska Faustino I sem er mitt uppáhald af ódýrum vínum.......
Ég er búinn að taka TWO LONE SWORDSMEN í gegn undanfarið. Þeir og Funki Porcini eru að fæða tónlistarþörfina undanfarið, fyrir þá sem hafa gaman af taktpælingum og smáatriðum í tónlist í bland við skemmtilega melodíu (jón gnarr) þá er þetta málið, en ég þarf svosem ekki að segja electro fólkinu það,, heldur ykkur hinum sem enn haldið að sálin hans jóns míns sé skemmtileg,,,
giggidi giggidi giggidi giggidi gu
Matur og drykkur | Breytt 6.2.2008 kl. 11:57 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
Matur fyrir Míu óþekku.
23.1.2008 | 14:13
Á miðvikudögum er ég heimavinnandi húsfaðir, og Herborg lætur mig alveg finna fyrir því á þessum dögum því þá á ég að gera allt. Hún heldur að á miðvikudögum sé hún í fríi. Allavega erum við Mía saman á miðvikudögum og í dag vöknuðum við seint, klukkan hálf tólf, þegar Herborg var farin í skólann leiddist mér svo ég fór að elda, skoðaði ískápinn og fann ýmisleg skemmtilegt, ég bjó til grænmetisrétt sem ég vona að verði góður í kvöld. Hann er svona:
Sósa:
Þrjú hvítlauksrif smátt sneidd og mýkt á pönnu. fínt niðurskorinn chili eftir smekk. Ein dós niðursoðnir tómatar og hellingur af ferskum kóríander sett útí. Salt og pipar.
grænmeti:
skar eggaldin niður í þunnar sneiðar og steikti í olíu.
skar rauða papriku niður í þunnar sneiðar og steikti í olíu.
guacamole skorið niður í þunnar sneiðar.
Nýrnabaunir (sem hafa verið í vatni síðan í gær)
samsetning:
raða eggaldin í botninn á eldföstu móti, kryddaði með arabikum, svo gvakamóle yfir það, svo papriku yfir það, svo nýrnabaunum skatterað þar yfir, svo sósan og svo sáldraði ég gráðosti og brie osti yfir.
svo er það annað nákvæmlega eins lag, fyrst eggaldin, svo gvakamóle (finnst fínt að hafa íslenskuna eins og þetta er sagt) svo papríka, svo baunir, svo sósa svo gráðostur, svo brie ostur og svo yfir það venjulegur ostur að eigin val.
Þetta sóttist seint í dag þar sem frúin litla var ekki á því að þetta væri skemmtilegt, þrátt fyrir að hafa fengið tóma kókflösku til að leika með. Þurfti að svæfa hana í millitíðinni. Ég setti þetta áðan í ofninn og ætla að láta þetta malla á 100 gráðum í svona klukkutíma því baunirnar voru ekki alveg tilbúnar. læt svo vita hvernig fór, en mig vantar salat og gott brauð. Líka hvítvín.
Síðar sama dag ,,, la l ala lala ll a al al a
Já,, maturinn er semsagt geðveikur, Jón Atli , Laufey, Daníella og Álfrún komu,, horfðum á leikinn og borðuðum,, þetta er geggjaður réttur sem ég ætla að skíra
óþekka Mía.
kveðja Daði
Matur og drykkur | Breytt 6.2.2008 kl. 12:01 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
Grillað í frostinu.
20.1.2008 | 22:12
Í dag var ótrúlega fallegt verður, ég vaknaði snemma og gekk á Úlfarsfellið með Torfa vini mínum og ljóðamanni. Við ræddum krufum heimsmálin, rifumst um ljóðskáld og ræddum Te. Ótrúlegt hvað maður hugsar skýrt í sól og frosti. Á leið á fjallið hringir síminn og það er Herborg að tjá mér að við eigum von á fólki í mat. Jón Atli og Laufey ásamt dætrum.
Úlfarsfell er ekki mikið fjall enda fell. Það var ánægjulegt að sjá fimm rjúpur þarna en óánægjulegt að þurfa að hlusta á mótorhjólamenn þeysa þarna um allt, en ég nenni ekki nöldra.
Í frostinu ákvað ég að grilla, fór í Pétursbúð að kaupa kol sem ekki voru til, það er sjaldan sem þessi snilldarbúð bregst mér en þeim fyrirgefst þar sem það er "off season" Maturinn var sem hér segir
tveir kjúklingar niðurbútaðir.
kjúklingurinn er marineraður í ólífuolíu, salt, pipar, hvítlauk, sítrónu, og smá mexican kryddi.
Bökunarkartöflur skornar í báta og dressaðar með hvítlauk, rósmarín og olíu. settar í fólíu og á grillið.
salatið var ruccola með perum, ráðosti og ristuðum furuhnetum. Drukkum kók með þessu.
Svosem ekki merkileg matseld, en mæli með því að grilla í frostinu.
kveðja Daði
Matur og drykkur | Breytt 6.2.2008 kl. 12:06 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Partízone grænmeti
13.1.2008 | 10:30
Á laugardagskvöldum hlusta ég á Partízone ef ég man eftir því, enda vandfundinn jafn frábær þáttur í útvarpi. Í gamla daga lá ég á sófanum en í dag eftir að ég varð svona stilltur verð ég að gera eitthvað eins og að elda. Ég er búinn að vera á vakt um helgina og í gær var frekar mikið að gera. var síðan kallaðu út aftur eftir að ég var kominn heim til að sinna fjallgöngumanni sem datt á hausinn og braut í sér tennur. ég var því frekar latur í gærkvöldi en ákvað samt að gera stóran grænmetisrétt sem gæti dugað okkur fram í vikuna. Þetta er nefnilega alger killer kalt oná brauð.
í tagínu setur þú:
(allt grænmeti skorið niður)
ca 200 ml vatn.
kjúklingabaunir, slatta.
þrjár sætar kartöflur
sellerí
fennelrót
broccoli
engifer
heilan hvítlaukshaus
lauk
gulrætur
döðlur
spínat
salt
pipar
turmeric
arabicum
saffran af hnífsoddi
kóriander, ground.
chili (ég vil hafa þetta sterkt en þið ráðið)
já,, man ekki eftir fleiru. svo er þetta soðið í tagínunni (góð íslenska) þar til þetta verður svona hálfgerð drulla. set þá eina dós af niðursoðnum tómötum yfir og sýð aðeins lengur.
Ég bjó til rjúpnasoð um jólin sem ég notaði að hálfu leyti á móti vatninu. næts ætla ég að nota bara soð til að sjóða þetta uppúr og athuga hvort það sé ekki sniðugt.
Þetta er snilldar þynnkumatur þar að auki. Og hollur.
Með þessu drakk ég nú bara íslenskt hvítvín eins og Sigmar B Haukson segir, eða vatn.
Partízon klikkaði ekki heldur. mæli með þessu útvarpi fyrir þá fáu sem ekki vita hvað það er.
kveðja Daði
Morocco kjúklingur í Tajina
31.12.2007 | 14:23
Eins og ég sagði þá fékk ég Tajinu eða Taginu í jólagjöf. Fyrir þá sem ekki þekkja þá er þetta pottur með skrítnu loki. Tajina er hönnuð til að sem minnst vatn þurfi til að sjóða í henni. Ég verð að segja að fátt hefur komið mér meira á óvart í eldhúsinu en þessi pottur, hann er frábær og ég sé að ég á eftir að nota hann mikið.
Ég mæli með krónukjúklingnum fyrir hagsýna. Ég versla þarna yfirleitt og þegar þessi kjúklingur er í boði kaupi ég alltaf slatta. stykkið er á ca 300 og það eina sem er að greyjunum er að þau eru smá gölluð, þe brotinn fótur yfirleitt þannig að þau enda í lélegum flokki en eru frábær matur.
Skar kjúklinginn í bita, hafði þá óreglulega því það er skemmtilegra að borða þá þannig. Maður hellir olíu í tagínuna (íslenska orðið) og ég setti kanilstöng, hvítlauk, salt og pipar auk smá kóríander. Í þessu steikti ég kjúklinginn þar til hann var orðinn fallega bronsaður.
Ég var búinn að skera niður í svona sæmilega bita sem ég hellti yfir kjúllann.
Kartöflur, sætar kartöflur, sellerí, mandarínu, chili, hvítlauk, döðlur, gráfíkjur og setti slatta af karríi, og saffron af hnífsoddi,, salt og pipar. Lokið sett á og soðið í svona 45 mínútur.
þetta var borðað með dýrindis brauði og bjór.
gleðilegt nýtt ár.
Aðfangadagur
25.12.2007 | 18:26
Ég er ekki mikið jólabarn, það er að segja ég er trúlaus og því hefur þessi hátíð ekki mikið gildi fyrir mig, nema sem skemmtileg samverustund með þeim sem ég elska og borða og fá gjafir,, ég myndi segja að gjafir séu það skemmtilegasta við jólin,,, ég byrjaði samt snemma í dag að elda,, ég byrjaði á því klukkan níu í morgun að handera rjúpurnar sem ég skaut af myndarskap austur á hornafirði með Óskari vini mínum, þá voru gengnir rétt um 32 kílómetrar fyrir tvær rjúpur,,, verð að segja að aldrei hef ég upplifað lélegri rjúpnavertíð en nú.... sumsé,, þegar ég var búinn að því tók ég mig til við rauðkálið sem var gert á þann eina hátt sem mér ferst,, skorið smátt, og steikt létt með lauk og kanilstöng,,, smá dijon og salt,, sett í ofninn undir álpappír,,, haft þar til það er orðið að hálfgerðu mauki,, þannig finnst mér það best,, ef fólk vill finna smá texture er gott að hafa það styttra,,,
soðið
tók fóarnið, hjörtun, leggina og bakið úr rjúpunni,, náði í eitthvað úr sarpinum á annarri þeirra og brúnaði á pönnu með hvítlauk og einhverju lélegu grænmeti sem var að komast á síðasta séns í ískápnum,, hellti svo vatni yfir allt saman og sauð lengi,,, lengi,, þar til eftir var kannski hálfur líter eða svo,, kannski aðeins meira,, allavega þar til bragðið var orðið sterkt,,, sigtaði þetta svo og kældi,,, nú var ég kominn í pásu,,
á miðjum degi ákvað ég síðan að hafa forrétt. Tók Vestmannaeyjahumarinn úr frysti. steikti í olíu hvítlauk, spínat, sellerí og aspas sem ég var búinn að láta liggja í rjóma og hunangi í svolítinn tíma,, lagði svo þverskorinn humarinn á þetta, saltaði og setti í ofninn á 180 í svona 20 mín,,,, drukkum gott hvítvín með þessu,, man ekki hvað,, þarf eiginlega að fara að taka betur eftir því hvað ég er að drekka,, jæja
nú var komið að því,, rjúpan er steikt á pönnu í íslensku smjöri þar til brún allt um kring, þá set ég hana í ofninn vanalega, nema núna ætlaði ég að breyta til og sjóða hana eins og var gert á mínu heimili til forna,,,, sem ég og gerði og var hún ekki nærrumþví jafn góð og þegar hún er sett í ofninn, þannig að þetta geri ég ekki aftur,,, sósan var síðan soðin niður,, bætt í hana rjóma, rifsberjahlaupi, salti og pipar, og smá kjúklingakrafti,, til að fá smá MSG,, sem allir hata,,, eða elska að hata,, en fyrir mig er þetta bara smá aukakraftur,,,, sósan var afbragð,, setti í hana að lokum smá þeyttan rjóma til að lyfta henni á hærra plan,,
með þessu var síðan drukkið rauðvínið sem ég fékk í jólagjöf frá vinnunni,,, man ekki hvað það heitir en það var fjandi gott enda Sævar Pétursson mikill rauðvínsmaður og veit sitt fag,,,
risalamand konunnar í eftirrétt,, hef ekki hugmynd um hvernig það er gert.
undir ómaði christmasmix diskur með electrónískum útgáfum jólaclassicera,, skemmtilegt,,
í jólagjöf fékk ég tajina,, ætla að hafa marocco stemmingu á jóladag (sem er í gangi núna) en skrifa um það á morgun,, nenni því ekki núna,,
kveðja Daði
Matur og drykkur | Breytt 6.2.2008 kl. 12:46 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Skata fyrir lata,,,,
23.12.2007 | 18:32
Í dag borðaði ég skötu á múlakaffi,,, er vanur að borða hana hjá mömmu en hún er fyrir austan hjá bróður mínum og ég var því í talsverðum vandræðum því mér finnst skötulykt viðbjóður og vil ekki hafa hana heima hjá mér,,, og ég var latur í dag,, þunnur í gær,,, drukkinn þar áður,, Jón Atli mágur minn átti afmæli og ég fór í það,, mikið af frægu fólki en ég var að mestu laus við félagsfælnina sem hrjáir mig,,, jæja,, skatan,, ég hringdi semsagt í Torfa vin minn sem aldrei hefur borðað skötu og við ætluðum í gömlu Akraborgina en þar var einkapartí,,, þá ætluðum við á Lóuhreiðrið,, en þar er komið núðluhús,, þannig að við fórum á þann stað sem við vorum öruggir um að skata væri á borðum,, Múlakaffi. Þar fengum við þessa dýrindis úldna skötu með rúgbrauði, soðnum kartöflum, rófu og floti,, ég reyndar meika ekki flotið,,, en við sátum til borðs með öldnum vestfirðingi sem sagði okkur margar sögur um skötuna,, fullkomið,,
annars er ég að undirbúa jólamatinn og ég byrja snemma að elda á morgun,, segi frá því síðar
Gleðileg jól
Kjúklingakjuðar á tailenska vísu,,,,
23.12.2007 | 18:20
Af því að ég er að reyna að hætta að borða hollan og leiðinlegan mat þá kaupi ég alltaf kjúklingakjuða sem mér finnst vera skemmtilegri,,, þeir eru líka bragðmeiri. síðan uppgötvaði ég frábæra sósu frá thai choice sem er í grænni dós,, man ekki alveg hvað hún heitir,,,, thai curry something,,, allavega,,, þá salta ég og pipra kjuðana og set þá í ofninn undir grillið,,, steiki í andafitu (sem ég hirði af andabringunum) hvítlauk, engifer, sellerí og papriku,, læt þetta malla svolítið og set svo í lokin spínat og kál,,,,, þegar kjuðarnir eru til,,, þá sósuna yfir og hrísgrjón með,,,, tekur enga stund og er gaman að borða með höndunum,,,,
hef eitthvað lítið verið að kaupa tónlist nýlega,, en er búinn að vera að hlusta á either or með Elliot smith heitnum og það heldur ekki einungis lífinu í nostalgíunni, heldur er það líka ansi kósí svona í myrkrinu,,,
gleðileg jól